One tour per person

Hópefli | Óvissuferðir | Starfsmannaferðir

Ef þú ert að leita að hópefli eða óvissuferð fyrir fyrirtækið þá ertu að réttum stað! Við erum með mjög marga spennandi valkosti fyrir fyrirtækjahópa þar sem við tvinnum saman ævintýri með Midgard Adventure við mat og drykk hjá Midgard Restaurant. Við getum einnig boðið upp á gistingu hjá Midgard Base Camp.

Við bjóðum upp á stuttar og lengri ferðir, fyrir smáa og stóra hópa. Þið getið annað hvort komið til okkar á Hvolsvöll eða við sækjum ykkur með rútu í bæinn. Áður en gleðin hefst er stoppað á Midgard Base Camp í kaffi og „meððí“ eða léttan hádegisverð. Eftir það er haldið á vit ævintýra sem auðvelt er að aðlaga að áhugasviði, fjárhag og mismunandi gerð og stærð starfsmannahópa.

Í lok dags er komið við aftur á Midgard Base Camp í léttar veitingar, drykk eða máltíð. Fyrir þá sem vilja gera enn meira úr ferðalaginu er svo hægt að gista hjá okkur eða á nærliggjandi hótelum.

Hópefli með Midgard

Hvataferðir | Fyrirtækjadagar | Bjórjóga

Við bjóðum upp á hópefli, fjörefli, hvataferðir, náttúruævintýri, óvissuferðir og bjórjóga. Við höfum margra ára reynslu af skipulagningu hópferða – við segjum stundum að við séum komin með svarta beltið í skipulagningu starfsmannaferða.

Hafðu samband og við sendum á þig tillögu til baka sem hentar þínu hópi út frá fjárhag og stærð hóps. Til að hafa samband getur þú notað fyrirspurnarformið hér á síðunni, sent okkur póst á adventure@midgard.is eða hringt í síma 578 3370. Hér fyrir neðan finnur þú nokkrar hugmyndir að hópefli og óvissuferðum.

 

Hugmyndir að hópefli/óvissuferð

Við getum auðveldlega aðlagað hverja hugmynd og eins tvinnað nokkrar hugmyndir saman þannig það henti þínum óskum.

Escape Game Midgard

Midgard Escape Game

Við höfum þróað mjög skemmtilegan „Escape Game“ sem heitir „Loki’s lack of love“. Í leiknum hverfur hópurinn inn í annan heim í Tumastaðaskógi við rætur fjallsins Þríhyrnings. Þar bíður hópsins ærið verkefni. Illgjarni Loki hefur afráðið að brenna Midgard og hópurinn verður með klækjum að koma í veg fyrir það. Hópurinn vinnur sig í gegnum skóginn með því að nota hugvit og útsjónarsemi allra þátttakendanna til að leysa þrautir og gátur. Eftir frábært hópefli snæðir hópurinn hádegisverð yfir eldi inni í skóginum áður en leikurinn er kláraður, Loki sigraður og Midgard bjargað.

Við getum leikið okkur með tímalengd leiksins, hann getur verið stuttur með fáum þrautum eða lengri. Vinsælt er að spila leikinn hálfan daginn (2,5-3 klst) og fara þá til dæmis inn í Nauthúsgil eða Merkurker eftir hádegi (sjá lýsingu neðar). Ef leikurinn er spilaður allur er miðað við 7 tíma með hádegisverði. Leikurinn hentar fyrir 8 manna hópa og stærri.

Mögulegar viðbætur:

  • Leikið í Nauthúsagili
  • Vaðið í Merkurkeri
  • Grillaður hálfmáni (calzone) yfir opnum eldi. Tilvalinn hádegisverður – hver gerir fyrir sig.
  • Grillað brauð á trjágrein yfir opnum eldi. Tilvalið síðdegissnarl – hver gerir fyrir sig.
  • Trúbador inn í skógi
  • Hópnum skipt í mismunandi erfiðar göngur
  • Heitur pottur og gufa í Midgard Base Camp
  • Jóga/Bjórjóga inn í mörk eða á Midgard Base Camp
  • Gisting (Midgard Base Camp, Þórsmörk eða öðrum nálægum stöðum)
  • Silent disco (út í náttúrunni eða á Midgard Base Camp)

 

 

Midgard Adventure Iceland Nauthúsagil

Nauthúsagil og/eða Merkurker

Nauthúsagil og Merkurker eru bæði einstaklega fallegir staðir á leiðinni inn í Þórsmörk. Að koma inn í Nauthúsagil er eins og að koma inn í grænan ævintýraheim þar sem auðvelt er að gleyma stað og stund. Þar er ótrúlega fallegt og ævintýralegt er að stikla á steinum yfir lækinn og komast innst inn í gilið. Í sjálfu sér eins og hópefli út af fyrir sig. Það myndast alltaf mikil stemning í Nauthúsagili.

Annar valkostur er að fara inn í Merkurker sem er aðeins innar á leið inn í Þórsmörk. Þar er mjög fagurt ker eða gil sem er hálf-falið í fjallshlíðinni. Neðst er þröngt gljúfur sem Sauðá rennur um í nokkurs konar hamragöngum eða helli. Sauðá og gilið eða sprungan sem hún rennur úr lætur lítið yfir sér séð frá veginum en þegar gengið er upp með ánni að gilkjaftinum vaknar forvitnin fljótt því áin bókstaflega hverfur inn í bergið. Sé þetta skoðað nánar kemur í ljós að áin rennur í gegnum stóra sprungu í fjallinu. Hluti af fjallshlíðinni hefur klofnað frá meginfjallinu og þannig myndast sprunga í gegnum hlíðina sem áin fellur eftir. Til þess að komast inn í hvilftina fyrir innan sprunguna, sem nefnist Merkurker vöðum við ána í sprungunni sem er ævintýraleg og eftirminnileg leið. Sprungan er fremur þröng og dimm og verður að vaða ána upp fyrir hné upp á móti straumi. Eftir því sem hinn endi sprungunnar nálgast birtir smátt og smátt og Merkurkerið opnast eins og nýr heimur.

Mögulegar viðbætur:

  • Grillaður hálfmáni (calzone) yfir opnum eldi. Tilvalinn hádegisverður – hver gerir fyrir sig.
  • Grillað brauð á trjágrein yfir opnum eldi. Tilvalið síðdegissnarl – hver gerir fyrir sig.
  • Escape Game í Tumastaðaskógi
  • Trúbador inn í skógi
  • Hópnum skipt í mismunandi erfiðar göngur
  • Heitur pottur og gufa í Midgard Base Camp
  • Jóga/Bjórjóga inn í mörk eða á Midgard Base Camp
  • Gisting (Midgard Base Camp, Þórsmörk eða öðrum nálægum stöðum)
  • Silent disco (út í náttúrunni eða á Midgard Base Camp)

 

Þórsmörk Midgard Adventure

Midgard Surprise jeppaferð (Þórsmörk)

Við bjóðum ykkur upp á ævintýraferð þar sem við lofum engu öðru en að gera ykkur daginn eftirminnilegan. Val á áfangastað getur verið breytilegt háð veðri en oftar en ekki farið í Þórsmörk. Stoppað á leiðinni á fallegum stöðum þar sem við bætum við stuttum göngum og einföldum leikjum. Inni í Þórsmörk er farið í stutta göngu við allra hæfi, boðið upp á léttar veitingar, leiki og gítarspil.

Mögulegar viðbætur:

  • Vaðið í Merkurkeri
  • Leikið í Nauthúsagili
  • Hópnum skipt í mismunandi erfiðar göngur
  • Heitur pottur og gufa í Midgard Base Camp
  • Jóga/Bjórjóga inn í mörk eða á Midgard Base Camp
  • Gisting (Midgard Base Camp, Þórsmörk eða öðrum nálægum stöðum)
  • Trúbador/hljómsveit
  • Silent disco (út í náttúrunni eða á Midgard Base Camp)

 

Óvissuferð Midgard

Fljótshlíðarfjör

Morgunverður eða dögurður í Midgard Base Camp. Þaðan er farið á rútu inn með Fljótshlíð með nokkrum stoppum á leiðinni t.d. við Gluggafoss og Þorsteinslundi þar sem við bregðum aðeins á leik.

Þaðan er keyrt inn að Felli og gengið og leikið eins og hentar hópnum . Gengið meðfram Þórólfsá eða upp á Þórólfsfell. Grillað í Felli, sungið og spilað.  Eftirréttur og drykkur á Midgard Base Camp á leið í bæinn.

Mögulegar viðbætur:

  • Grillaður hálfmáni (calzone) yfir opnum eldi. Tilvalinn hádegisverður – hver gerir fyrir sig.
  • Grillað brauð á trjágrein yfir opnum eldi. Tilvalið síðdegissnarl – hver gerir fyrir sig.
  • Trúbador
  • Hópnum skipt í mis erfiðar göngur
  • ATV fjórhjólaævintýri
  • Heitur pottur og gufa í Midgard Midgard Base Camp
  • Jóga/Bjórjóga
  • Gisting í fjallaskála, Midgard Base Camp eða öðrum nálægum stöðum
  • Silent disco (út í náttúrunni eða á Midgard Base Camp)

 

Starfsmannaferðir Midgard

Heimamaður í einn dag!

Gestir velja sér fyrirfram eina afþreyingarstöð eftir sínu áhugasviði.  Markmiðið er að kynna ykkur fyrir heimamönnum og öllum áhugaverðu stöðunum og möguleikunum í kringum Hvolsvöll. Tímalengd hverrar stöðvar er á bilinu 2-3 klst og hver þátttakandi velur sér eina stöð til þátttöku í. Fjöldi stöðva fer eftir stærð hóps. Sem dæmi um stöðvar má nefna:

  • Tónlistarstöð
  • Fjallgöngustöð
  • Íslendingasagnastöð
  • Íþróttastöð
  • Fat-bike stöð
  • Skógræktar- og útivistarstöð

Mögulegar viðbætur:

  • Hádegisverður/kvöldverður
  • Prívat opnun á sundlauginni
  • Drykkur eða miðdegiskaffi á Midgard Restaurant að loknum afþreyingum
  • Gisting á Midgard Base Camp eða nágrenni
  • Silent disco (út í náttúrunni eða á Midgard Base Camp)

Hafðu samband og við sendum á þig nánari lýsingu á hverri stöð og verðtilboð.

 

Ísdagur: ganga – klifur – sleði

Eftir stutta viðdvöl í Midgard Base Camp er ferðinni haldið áfram austur á Sólheimajökul þar sem leiðsögumenn Midgard Adventure gefa innsýn í undraheim jöklanna, aðstoða fólk við að festa á ísbrodda og leiða hópinn svo í gönguferð um jökulinn. Hér er hægt að bæta við ísklifri ef hópurinn er þannig samsettur. Hér er einnig hægt að skipta ísgöngu út fyrir snjósleða eða bæta snjósleðaferðinni við.

Mögulegar viðbætur:

  • Snjósleði
  • Ísklifur
  • Dögurður eða kvöldverður á Midgard Base Camp
  • Eftirmiðdagskaffi eða drykkur á Midgard Base Camp
  • Heitur pottur og gufa á Midgard Base Camp
  • Gistingu á Midgard Base Camp
  • Silent disco (út í náttúrunni eða á Midgard Base Camp)

 

Tumastaðaskógur staffaferð

Tumastaðaskógur

Ferðin byrjar á því að skoða nýja eldfjallasetrið á Hvolsvelli. Eftir það er keyrt inn Fljótshlíðina og inn í Tumastaðaskóg þar sem við göngum um skógræktina og grillum brauð yfir eldi við harmonikuleik, söng eða gítarspil. Þaðan er komið á Midgard Base Camp í kvöldverð og drykk.

Mögulegar viðbætur:

  • Grillaður hálfmáni (calzone) yfir opnum eldi. Tilvalinn hádegisverður – hver gerir fyrir sig.
  • Grillað brauð á trjágrein yfir opnum eldi. Tilvalið síðdegissnarl – hver gerir fyrir sig.
  • Ganga á Þríhyrning
  • Útreiðatúr
  • ATV fjórhjólaævintýri
  • Hægt er að bæta við stöðvum úr “Heimamaður í einn dag”
  • Gisting í Midgard Base Camp
  • Nauthúsagil
  • Merkurker
  • Jóga/Bjórjóga
  • Silent disco (út í náttúrunni eða á Midgard Base Camp)

 

Hugmyndir að hópefli

Borgarferð til Vestmannaeyja

Ný, viðburðarík og skemmtileg ferð til Vestmannaeyja þar sem hópurinn er leiddur í gegnum menningu Vestmannaeyja í gegnum mat, lifandi tónlist, bátsferð, bruggerí og sögur frá heimamönnum. Á heimleið er stoppað í kokteil á Midgard Base Camp.

Fundur/vinnudagur fyrir stóra sem smáa hópa

Langar þig að halda fund í nýju og fersku umhverfi þar sem engar truflanir eru til staðar? Jafnvel bæta við hópefli, ævintýri eða ómótstæðilegum kvöldverði? Við getum aðstoðað þig við að útbúa akkúrat þannig dagskrá.

Hópefli

Vantar að hrista hópinn saman, efla tengsl innan hópsins eða veita hópnum innblástur? Við getum skipulagt hópefli fyrir þig út frá þínum markmiðum.

Teymisþjálfun (NBI greining)

Nýjung hjá okkur er að bjóða upp á teymisþjálfun í bland við afþreyingu. Hluti dagsins er þá nýttur til að fara yfir niðurstöðu úr NBI greiningu, eða Neethling Brain Instrument. Um er að ræða tæki sem gefur tilefni til skemmtilegrar umræðu um samskipti, áhrif og ábyrgð manns sjálfs í samskiptum við aðra.

Fyrir ferðina svara allir starfsmenn spurningalista á netinu og svo fær hver og einn tíma hjá markþjálfa til að fara yfir niðurstöður. Greiningin eykur sjálfsþekkingu og -skilning. Í ferðinni með okkur kemur hópurinn svo saman með markþjálfa og þar er farið yfir greiningu hvers og eins og hvernig hópurinn kemur út sem ein heild. Þessi vinna skilar ekki bara aukning skilning á okkur sjálfum og ríkjandi persónuleika/hegðun heldur einnig auknum skilning á samstarfsfélögum og hvernig er hægt að stuðla að bættum samskiptum með betri innsýn inn í persónuleika/hegðun annarra innan teymisins.

 

Hellakvöldverður (lúxus)

Fyrir minni hópa (15 manns eða færri) bjóðum við upp á hellakvöldverð. Staðsetningin er leyndarmál en þetta er einstök og eftirminnileg upplifun. Endilega skoðið þetta myndband hér.

 

Fleiri hugmyndir að hópefli/óvissuferð

  • Tveggja daga ganga – gist í tjaldi eða fjallaskála
  • Gisting á jökli
  • Hjólaferðir
  • Jóga eða bjórjóga
  • Ganga um Fimmvörðuháls
  • Jeppaferð á Eyjafjallajökul
  • Gisting í fjallakofa með minni og stærri hópa
  • Skipta hópnum upp eftir áhuga, sumir ganga, sumir hlaupa, sumir njóta. Hópurinn tengdur hluta úr degi.

Fleiri viðbætur við hópefli/óvissuferð

  • Silent disco (út í náttúrunni eða á Midgard Base Camp)
  • Trúbador
  • Pub Quiz
  • Karaoke
  • Fyrirlestur um fjallaferðamennsku
  • Klifurveggur á Midgard Base Camp
  • Tónleikar með Midgard húsbandinu

 

Starfsmannagleði

Veitingastaður – Midgard Restaurant

Veitingastaður Midgard tekur um 90 manns í sæti. Við leggjum áherslu á bjóða upp á mat frá heimabyggð og gerum sem flest frá grunni. Er hópurinn þinn mestmegnis kjötætur eða grænkerar, eða blandaður? Láttu okkur vita og við munum senda þér tillögur sem henta. Viltu kynna þér Midgard Restaurant betur? Smelltu hér.

 

Gisting – Midgard Base Camp

Ef þið viljið lengja starfsmannaferðina eða halda árshátíðina hér fyrir austan þá bjóðum við upp á gistingu hjá Midgard Base Camp. Í boði eru 62 blönduð gistirými, frá kojum til prívat herbergja með prívat baðherbergjum. Ef slík gisting hentar ekki þá er er okkur ánægja að bóka ykkur hjá einhverju nágrannahótelanna ásamt því að aðstoða ykkur við alla skipulagningu dagsins / viðburðarins.

 

Midgard Family Iceland

Hafðu samband

Ekki hika við að hafa samband og láta okkur klæðskerasníða lausnir að þínu fyrirtæki og fjárhag. Við tökum bæði á móti smáum og stórum hópum.

Þú getur notað fyrirspurnarmöguleikann hér á síðunni eða sent okkur póst á adventure@midgard.is. Það er gott að taka fram fjölda starfsmanna og eins áætlaðan kostnað ef hann liggur fyrir. Við munum svo hafa samband með okkar tillögu.

 

Um okkur

Við hvetjum þig til að skoða myndbandið hér fyrir neðan til að kynnast okkur betur. Hér er líka hægt að lesa söguna okkar.

 

Umsagnir um hópefli með Midgard

Þetta var geggjuð ævintýraferð! Ferðin var svo vel heppnuð og fór alveg vel fram úr væntingum. Nauthúsagil var draumi líkast, svo fallegt var það. Allir sem einn voru í skýjunum! Þetta svo sannarlega hristi hópinn vel saman.

– Helga Árnadóttir, Vodafone

Við vorum að leita að dagsferð fyrir hóp sem er mjög fjölbreyttur. Við vorum ekki með mikinn pening en okkur langaði til að gera eitthvað skemmtilegt. Ég vissi af Midgard og talaði við Björgu, hún kom með  mjög margar tillögur að hlutum sem hægt er að gera á Suðurlandi. 

Við enduðum á að fara m.a. í dásamlega skógarferð með leiðsögn og varðeldi, alveg hreint ógleymanlega skemmtilegt. Ég get svo sannarlega mælt með Midard fyrir stóra og litla hópa sem vilja gera sér glaðan dag. Þjónustan var  mjög góð og maturinn, drykkirnir og umhverfið allt alveg hreint frábært.

– Guðbjörg Káradóttir, Reykjavíkurborg

Ég mæli heilshugar með að skipuleggja starfsmannaferð með Midgard. Dagurinn var mjög skemmtilegur og vel haldið utan um okkur.  Aðstaðan var frábær, andrúmsloftið vinalegt og faglega staðið að hlutunum.  Við byrjuðum daginn á tveggja tíma vinnufundi á Midgard Base Camp sem endaði með ljúffengum hádegismat. VIð héldum svo inn í Tumastaðaskóg þar sem við vorum leidd í gegnum mjög skemmtilegt og ferskt hópefli. Leiðsögumennirnir voru hressir og náðu vel til hópsins. Punkturinn yfir i-ið var svo þegar við grilluðum brauð yfir opnum eldi. VIð enduðum svo daginn aftur á Midgard Base Camp í mat og drykk. Þetta var frábær dagur í alla staði – takk fyrir mig!
– Ingibjörg Jenný Lárusdóttir, Sýslumaðurinn á suðurlandi.
Tumastaðaskógur staffaferð
Fyrirtækjaferðir Midgard
Óvissuferð með Midgard